Ekki hægt að hafa ljósmyndarann undir vaskinum

Unnur Herbertsdóttir, sem býr á Hólmaströnd, faðmar Söndru, æskuvinkonu sína, …
Unnur Herbertsdóttir, sem býr á Hólmaströnd, faðmar Söndru, æskuvinkonu sína, innilega að sér. Ánægð með að hafa endurheimt hana en Unnur greindist nýverið með krabbamein. Hjá þeim stendur Jóhann Örn, sonur Unnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég sá þetta strax myndrænt fyrir mér og langaði að gera grein sem lýsti flutningunum frá upphafi til enda,“ segir Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, sem fylgdi hjónunum Magnúsi Magnússyni og Söndru Vestmann yfir hafið þegar þau fluttu frá Íslandi til Noregs á dögunum.

Hann byrjaði að mynda meðan þau voru að pakka föggum sínum á Íslandi og þegar upp var staðið voru myndirnar orðnar fjögur þúsund. „Það var ekki auðvelt að velja,“ segir Árni sposkur. 

Myndafrásögnin hafði algjöran forgang og Árni gat fyrir vikið lítið hjálpað til við framkvæmdirnar ytra enda ómögulegt að hafa ljósmyndarann undir vaskinum þegar besta mótífið knýr dyra. „Ég fékk vinnuvettlinga við komuna út en þeir eru ónotaðir.“

Sandra og Magnús í nýja garðinum sínum.
Sandra og Magnús í nýja garðinum sínum. mbl.is/Árni Sæberg


Ekki svo að skilja að það hafi skipt sköpum. „Sandra er hamhleypa til verka og Elmar bróðir hennar sömuleiðis. Eftir að hafa fengið sér tvo kaffibolla einn morguninn vatt Sandra sér í að rífa niður hurðina á herberginu sem ég svaf í, enda þótt ekkert lægi á því. Ég fékk bara gardínu í staðinn,“ segir Árni hlæjandi. „Þetta lýsir henni vel. Ég dáist að því hvað framkvæmdirnar gengu hratt og vel fyrir sig.“

Nánar er fjallað um flutningana í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert