Eru ekki byrði á okkar samfélagi

Guðmundur Árni Stefánsson.
Guðmundur Árni Stefánsson. mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, segir umræðuna um móttöku flóttafólks vera að „pólaríserast“ [skiptast í tvær fylkingar], sem sé ekki gott. Regluverkið í tengslum við þessi mál þurfi að vera bæði skýrt og gagnsætt.

Í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun sagði hann að ekki megi gleyma því að „í þessu flóði flóttafólks“ komi meira en helmingur frá Úkraínu þar sem stríð hefur ríkt. Allir hafi verið sammála um að bregðast við vinum okkar í neyð.

Burðarásar í atvinnulífinu

Hann sagði umræðuna um móttöku flóttafólks hérlendis ekki nýja af nálinni og sagði að í kjölfar EES-samningsins „þá opnuðust allar gáttir“ þegar réttur fólks í öðrum Evrópulöndum var jafnmikill hér á landi og annars staðar.

„Þá var hrópað og kallað um það að Pólverjar, Litháar, Lettar.... Rúmenar voru mjög notaðir í hræðslupólitíkinni. Þetta fólk er burðarásar í íslensku atvinnulífi í dag,“ sagði Guðmundur Árni og bætti við að Íslendingar þurfi fleira fólk til að vinna hérlendis.

„Missum þetta ekki út í það sem maður sér á samfélagsmiðlum að þetta fólk sé byrði á okkar samfélagi,“ bætti hann við og sagði mikilvægt að vinna í þessum málum án upphrópana. Misjafn sauður sé í mörgu fé, rétt eins og hjá Íslendingum, en mikill meirihluti flóttafólks sé velkominn.

Má ekki blanda saman 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði mikilvægt að blanda ekki saman vinnumarkaðsmálum og verndarkerfinu. „Ef við festumst þar þá verðum við föst þar gagnvart umræðunni,“ sagði hann. Það þurfi að vera skýrt með hvaða hætti nálgast skuli verndarkerfið á grundvelli flóttamannasamningsins.

Bergþór Ólason.
Bergþór Ólason. mbl.is/​Hari

Hann sagði sókn fólks sem leitar verndar hér á landi vera mjög mikla í öllu samhengi og komast þurfi að niðurstöðu í samræmi við hvað kerfin okkar ráði við.

„Ég held að við þurfum að ganga þá vegferð til enda að taka út þessi séríslensku ákvæði sem eru að ýta undir þessa segla sem eru að orsaka það að umsóknir til Íslands eru margfaldar á við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.“

Allar tölur verða ýktar

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, sagði það ekki rétt að bera saman hlutfallslega hversu margir komi til Íslands við hversu margir komi til annarra landa. „Þegar við erum með mjög fámenna þjóð þá verða allar tölur í því samhengi ýktar,“ sagði hún.

Hún sagðist óttast að stjórnvöld séu að reyna að hægja á móttöku flóttafólks en nefndi einnig að ákveða þurfi hvað Íslendingar geti tekið á móti mörgum.

Alexandra Briem.
Alexandra Briem. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alexandra sagði „mjög mikið af fólki“ hafa bæst við í Reykjavík og sagði fjölda barna sem hingað hefur komið svipaðan og heill grunnskóli á þessu ári.

Hún sagðist telja að Íslandi geti tekið á móti „fullt af fólki“ en að auknir peningar þurfi að fylgja með frá ríkinu. Innviðir borgarinnar þurfi að stækka meðfram auknum fjölda flóttafólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert