Heimili og skóli fá viðbótarstuðning

Verkefnið hefur verið styrkt af íslenskum stjórnvöldum og Evrópusambandinu.
Verkefnið hefur verið styrkt af íslenskum stjórnvöldum og Evrópusambandinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur veitt samtökunum Heimili og skóla viðbótarstuðning til SAFT-verkefnisins, en markmið þeirra er að verja börn og ungmenni gegn hatursorðræðu, ólöglegu og meiðandi efni á netinu og stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu.

Verkefnið hefur verið starfrækt og styrkt af íslenskum stjórnvöldum og Evrópusambandinu, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Ekki fékkst styrkur frá ESB á þessu ári og hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, því ákveðið að veita 15 milljóna króna fjárframlag til viðbótar við 15 milljóna króna árlegt framlag ríkisins til nýtingar í Gegn hatursorðræðu, útgáfu á fræðsluefni fyrir börn, foreldra og starfsfólk skóla, rannsóknir og greiningar er varða stafræna borgaravitund, vegna verkefna UngSAFT og fyrirlestra og fræðslu á vettvangi.

„Börn og ungmenni verja meiri og meiri tíma á netinu og þörfin fyrir öryggri netnotkun aldrei verið meiri. Við þurfum að vera sívakandi fyrir hatursorðræðu og ofbeldi á vefmiðlum og mikilvægt að foreldrar fylgist vel með netnotkun barna sinna,“ er haft eftir Ásmundi.

„Heimili og skóli gegnir mikilvægu hlutverki í að tengja saman börn, foreldra, skóla, sveitarfélög og stjórnvöld og ég vænti þess að samtökin taki virkan þátt í þeim viðamiklu breytingum sem standa yfir í menntakerfinu og málefnum barna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert