Hvað hefur Abú Dabí með Norðurslóðir að gera?

Hringborði Norðurslóða er nýlega lokið, því stærsta frá upphafi. Næsta þing undir formerkjum Hringborðsins verður haldið í Abú Dabí, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna, í janúar. 

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, stofnandi og stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða, segir aðspurður að erindi Asíu- og Arabíuríkja gagnvart Norðurslóðum sé ríkt. 

Á sér allt rætur í bráðnun rétt norðan við Ísland

Hann er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum, þar sem hann ræðir Hringborðið, alþjóðapólitík, umdeildu ummælin og svo margt fleira. 

„Auðveldasta skýringin er að skoða bráðnun Grænlandsjökuls og bráðnun hafíssins hér fyrir norðan Ísland,“ segir Ólafur og bætir við að sjávarborð alls staðar í heiminum hækki um tvo metra ef aðeins fjórðungur Grænlandsjökuls bráðnar. 

„Það gerir það að verkum að borgir eins og Abú Dabí og Dúbaí, Singapúr og Sjanghaí, borgir í Japan og Kóreu verða ekki byggilegar eins og þær hafa verið. Það gildir það sama um borgir í Bandaríkjunum, Evrópu og annars staðar.“

Hann segir ofsaveður tengd loftslagsvánni eiga sér höfuðrætur í bráðnun jökla rétt norðan við Ísland. 

Auk þess séu miklir efnahagslegir hagsmunir. „Norðurslóðir eru mjög ríkar af margvíslegum auðlindum; orkuauðlindum, málmum, sjávarauðlindum og öðru slíku,“ segir Ólafur. Síðast nefnir Ólafur siglingar yfir norðurhvel jarðar sem sameiginlegt hagsmunamál landa sem láta sig málefni Norðurslóða varða. 

Þáttinn með Ólafi Ragnari Grímssyni má nálgast í heild sinni hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert