Tveimur keppendum tókst að lyfta 120 kílóa Atlas grjótum upp að öxl í aflraunakeppninni Hvammsvíkur Víkingurinn í dag, sem Hvammsvík sjóböð í Hvalfirði efndu til í samstarfi við World Class.
Keppt var í að lyfta 75, 120 og 170 kílóa Atlas grjótum og náðu þeir Stefán Torfason og Vilius Jokuzys að lyfta 120 kílóum. Engum tókst þó að lyfta 170 kílóum.
Skúli Mogensen, stofnandi Hvammsvíkur sjóbaða, segist hæstánægður með daginn.
„Þetta gekk hörkuvel og var hrikalega gaman,“ segir Skúli í samtali við mbl.is, en 20 manns tóku þátt í keppninni. „Formlegu keppninni er lokið en það er enn fólk að mæta og taka léttari grjótin.“
Að sögn Skúla fór Vilius Jokuzys langleiðina með 170 kílóa grjótið, en tókst þó ekki að lyfta því alveg upp að öxl. Öllum keppendum tókst að lyfta 75 kílóa grjóti. Meðal þeirra voru Björn Leifsson, eigandi World Class, og Skúli sjálfur.
Í fyrstu verðlaun, fyrir að lyfta öllum þremur grjótunum, voru ein milljón í reiðufé, aðgangur fyrir tvo í Betri stofuna í Laugum Spa og ævilangur aðgangur að sjóböðunum í Hvammsvík. Keppendur þurftu að lyfta grjótunum í þyngdarröð til þess að komast áfram í næsta flokk.
Í önnur verðlaun, fyrir að lyfta 120 kílóum, var tveggja nátta gisting í Hvammsvík og ótakmarkaður aðgangur í böðin þá daga sem gist er ásamt aðgangi fyrir tvo í Betri stofuna í Laugum spa. Í þriðju verðlaun, fyrir að lyfta 75 kílóum, var aðgangur fyrir tvo í böðin ásamt aðgangi í Betri stofuna í Laugum Spa.
„Þetta verður árlegur viðburður héðan í frá og við hlökkum til að sjá alla að ári,“ segir Skúli að lokum.