Eldur kviknaði í rafmagnsvespu á leikvelli við Bergþórugötu um ellefuleytið í gærkvöldi. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var engin manneskja í grennd þegar komið var á vettvang.
Aftanákeyrsla varð á Grensásvegi um tíuleytið í gærkvöldi en engin slys urðu á fólki.
Slökkviliðið fór í reykræstingu í íbúð fjölbýlishúss í hverfi 108 í Reykjavík eftir að pottur hafði verið skilinn eftir á eldavél.
Alls fóru dælubílar í sex útköll síðasta sólarhringinn, þar á meðal var um að ræða minniháttar mál vegna vatnsleka.
Farið var í 96 sjúkraflutninga, þar af var um 13 forgangsverkefni að ræða.