Áburðarframleiðslutilraun Atmonia og Sorpu gæti uppfyllt þarfir bænda hér á landi að fullu með innlendri, sjálfbærri frumframleiðslu áburðar að sögn Guðbjargar Rist Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Atmonia.
Atmonia og Sorpa hafa undirritað viljayfirlýsingu um þróunarsamstarf á framleiðslu köfnunarefnisáburðar sem hliðarafurð af metangasvinnslu Sorpu úr lífrænum úrgangi í Gaju, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi.
Markmiðið með samstarfinu er að þróa framleiðsluaðferð fyrir sjálfbæran áburð þar sem verð mun haldast mun stöðugra en á tilbúnum innfluttum áburði, sem hefur hækkað mikið í verði undanfarin misseri. Framleiðsla tilbúins áburðar er þar að auki óumhverfisvæn og orkufrek.
„Í rauninni er þetta fyrsta tilraunin, og það er í raun ekki mikið ammoníak sem kemur út úr jarðgerðarvinnslu. En ef þetta tekst vel til þá eru næstu skref að gera sambærilegar tilraunir með mykju og með affallsvatn af ýmsum toga. Ef það næst að grípa allt ammoníakið í slíkum úrgangi þá gæti það dekkað allt saman,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Fyrir utan augljósan ávinning fyrir umhverfið, standa vonir til þess að ná fram umtalsverðum verðmætum fyrir íslenska bændur, með innlendri, sjálfbærri frumframleiðslu áburðar.
„Þetta er tækni sem er hægt að heimfæra og virkar annars staðar líka, þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri. En ennþá þýðingarmeira fyrir Ísland, því við verðum flytja allan áburðinn okkar inn í dag, sem er náttúrulega mjög dýrt og gerir okkur líka rosalega háð öðrum,“ segir Guðbjörg.
Áburðinn sé hægt að nota á allt að sögn Guðbjargar Rist.
„Það er í rauninni hægt að nota á allt. Við erum í miklu samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands um ræktunartilraunir við íslenskar aðstæður þannig að við erum búin að vera í nokkur ár núþegar að vinna með landbúnaðarháskólanum að vinna að tilraunum, bæði utanhús og innanhús. Fyrsta útgáfan okkar verður vökvaáburður sem kemur út úr þessum fyrstu tilraunum. Það væri fyrsta skref, þ.e. að sjá hvort þetta gangi ekki örugglega upp, og svo væri næsta skref að fara í fastan áburð.“
Spurð hvort áburðarframleiðslutilraunin muni standa yfir í nokkur ár segir hún að vonir standi til þess að tilraunin gangi hratt fyrir sig. „Við vonumst til að gera það hraðar en það þar sem við höfum verið núþegar í þróun á grunntækninni við að grípa og umbreyta ammoníakinu, en sú þróun hefur verið í þrjú ár.“