Hrintu drengjum af hjóli og létu höggin dynja

Árásin átti sér stað á göngustíg við gatnamót Fífuhvammsvegar og …
Árásin átti sér stað á göngustíg við gatnamót Fífuhvammsvegar og Hlíðardalsvegar. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðist var á tvo fjórtán ára drengi að tilefnislausu í Kópavogi í gærkvöldi. Drengirnir, sem voru á leið úr bíó, voru saman á rafhlaupahjóli þegar árásarmennirnir keyrðu á eftir þeim á vespu, hrintu þeim af hjólunum og létu höggin dynja á þeim.

Talið er að þeir sem réðust á þá séu á svipuðu reki, líklega aðeins eldri.

„Þeir fóru framhjá Snælandssjoppu í Lindahverfinu þar sem þessir strákar voru og þá fara þeir að elta þá á vespu. Á göngustígnum hrinda þeir þeim af og fara að kýla þá.

Þeir draga upp kylfu til að sýna þeim, en þeir notuðu hana nú ekki við barsmíðarnar, það voru bara hnefarnir,“ segir Þórður Heiðar Þórarinsson, faðir annars drengsins sem lenti í árásinni, í samtali við mbl.is.

Héldu áfram þar til bíll stoppaði

Atvikið átti sér stað um tíuleytið á göngustíg við gatnamót Fífuhvammsvegar og Hlíðardalsvegar. Árásin hélt áfram þar til öðrum drengjanna tókst að hlaupa út á götu og stoppa bíl sem var að keyra framhjá. Þegar bíllinn stoppaði flúðu árásarmennirnir af vettvangi.

Drengirnir þurftu báðir að þola þung högg og er sonur Þórðar með glóðarauga og stóra kúlu á enninu.

„Hann var náttúrulega miður sín í gær og skelfdur eftir þetta, en það hefði klárlega getað farið verr. Maður veit ekki hvernig hefði farið ef þeir hefðu haldið þessu áfram,“ segir Þórður um líðan sonar síns og bætir við að vinurinn hafi sloppið betur.

„Ekki eitthvað sem maður vill sjá gerast“

Þórður ákvað að greina frá atvikinu á Facebook-hópi Lindahverfis ef ske kynni að einhverjir foreldrar könnuðust við lýsingar á árásarmönnunum.

„Þetta er náttúrulega ekki eitthvað sem maður vill sjá gerast hérna í hverfinu né annars staðar. Við hringdum strax í lögregluna sem kom og ræddi við þá og fór og svipaðist um í hverfinu. Svo myndum við þurfa að leggja formlega inn kæru núna eftir helgi ef við hefðum hug á því.“

Aðspurður segist hann ekki hafa heyrt frá lögreglunni í dag.

Ekki náðist í lögregluna við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert