Fyrirhugaðar framkvæmdir Vegagerðarinnar á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu sæta mikilli andstöðu meðal íbúa, en 22 íbúar og eigendur íbúða við Hringbraut 52 til 58 mótmæla framkvæmdunum.
Þá áskilja þau sér einnig rétt til að kæra framkvæmdirnar, gerist þess þörf. Telja þau framkvæmdirnar auka hættu fyrir gangandi vegfarendur og íbúa. Þá séu þær einnig til þess fallnar að valda aukinni svifryksmengun, hljóðmengun og almennum óþægindum.
Þetta kemur fram í fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fleiri íbúar sendu inn athugasemdir undir eigin nafni og lýstu sambærilegum áhyggjum.
Framkvæmdin sem um ræðir felur í sér malbikun akreina að gatnamótum Nesbrautar 49-05 og Hofsvallagötu. Þá verður endurgerð miðeyja við gatnamót, vinstribeygjuvasi lengdur og breytingar gerðar á hægri akrein, austan megin við gatnamótin.
Akreinar Hringbrautar verða færðar til suðurs vegna endurgerðar miðeyju og endurgerð hluta kantsteina. Til viðbótar verður ráðist í endurnýjun og breytingar á gatnalýsingu ásamt umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum.
Með þessu er beygjuakrein inn á Hofsvallagötu lengd og mun það hafa í för með sér að fjarlægja þurfi tíu bílastæði, þar af sjö fyrir utan Hringbraut 52 til 58. Þá verði þetta meðal annars til þess að íbúar við Hringbraut 52 til 58 þurfi að ganga langar vegalengdir til þess að koma matvöru heim til sín.
Telja íbúarnir þetta frekjulega ákvörðun sem gangi hart á þeirra lífsgæði og gangi gegn áherslum borgarinnar um fjölskylduvænna umhverfi og minnkandi mengun.
Þrátt fyrir mótmæli íbúa var samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfið á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs. Fulltrúar ráðsins telja að framkvæmdirnar muni bæta öryggi hjólandi og fótgangandi vegfarenda „á þessum hættulegu gatnamótum.“
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram bókun á fundinum þess efnis að rétt væri að taka athugasemdir íbúa og íbúðareigenda alvarlega og framkvæmdum frestað.
„Fólki finnst þrengt verulega að sér, og sumir eiga erfitt með að komast inn í hverfið sitt. Komast heim og að heiman. Mjög sennilega mun umferð aukast um bílastæði meðfram Brávallargötu og Grund, með aukinni hættu á slysum vegna umferðar.
Það að beina því að íbúum að leggja inn í hverfinu mun valda óþægindum fyrir aðra íbúa í Vesturbænum með tilheyrandi óánægju og nágrannaerjum eins og haft er eftir einum þeirra sem leggja fram athugasemdir. Nú þegar er bílum lagt víða og lítið framboð er af stæðum. Flokkur fólksins hefur áður talað um þá sem eiga erfitt með gang og geta ekki borið vistir heim. Það hljóta að teljast til mannréttinda að geta flutt vistir heim til sín,“ segir meðal annars í þeirri bókun.