Rúmlega þúsund skjálftar frá miðnætti

Þúsund skjálftar hafa mælst í Herðubreið frá miðnætti.
Þúsund skjálftar hafa mælst í Herðubreið frá miðnætti. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjálfvirkt mælakerfi Veðurstofunnar hefur mælt rétt rúmlega þúsund skjálfta í og við Herðubreið frá miðnætti. Einar Hjörleifsson, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, segir virknina vera talsverða en að skjálftarnir séu allir frekar litlir. 

Einar segir að óróapúls hafi ekki greinst á svæðinu, en slíkt getur verið merki um áhlaup kviku undir yfirborðinu sem ekki hafi náð alla leið upp á yfirborðið. „Það er áfram dálítil virkni og hefur haldið áfram í kvöld,“ segir Einar. 

Jarðskjálfti upp á 4,1 varð klukkan 23.11 í gærkvöldi um 2,5 km frá toppi Herðubreiðar og var hann sá stærsti frá því mælingar hófust á svæðinu árið 1991. Frá miðnætti í dag hafa mælst þrettán skjálftar yfir 2 að stærð og einn yfir 3 að stærð, en sá varð klukkan 07.44 og mældist 3,3 að stærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert