Sá stærsti frá upphafi mælinga

Herðubreið.
Herðubreið. mbl.is/RAX

Jarðskjálfti upp á 4,1 varð klukkan 23.11 í gærkvöldi um 2,5 km frá toppi Herðubreiðar. Skjálftinn varð norður af fjallinu, um 1,3 km frá rótum þess, og er hann sá stærsti sem Veðurstofa Íslands hefur mælt þar síðan mælingar hófust árið 1991.

Rúmlega 550 jarðskjálftar hafa mælst í skjálftahrinu í nágrenni Herðubreiðar eftir að fyrsti skjálftinn gekk yfir laust fyrir klukkan 22 í gærkvöldi, 3,1 að stærð.

Að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, bárust fimm tilkynningar um að stærsti skjálftinn hafi fundist á Akureyri, sem er í um 100 km fjarlægð frá Herðubreið.

Sá næststærsti mældist árið 1998

Lovísa Mjöll segir næststærsta skjálftann sem Veðurstofan hefur mælt í nágrenni Herðubreiðar hafa verið af stærðinni 4,0 árið 1998. Í maí 2014 urðu tveir skjálftar af stærðinni 3,9 og í september sama ár einn sem mældist af stærðinni 3,8.

„Það eru nokkrir vel yfir 3 sem hafa mælst en þessi klífur upp í 4,1 þannig að hann er sá stærsti,“ segir hún um skjálftann í gærkvöldi.

Herðubreið.
Herðubreið. mbl.is/Sigurður Bogi

Eldgos ólíklegt

Hún nefnir að Herðubreið hafi myndast undir jökli fyrir um tíu þúsund árum síðan og almennt sé talið ólíklegt að þar gjósi aftur. Talað er um fjallið sem svokallað einnar kynslóðar eldfjall í því samhengi.

„Við erum að fara yfir alla skjálftana. Við fylgjumst með þróuninni, hvort þetta haldi áfram eða ekki,“ segir hún jafnframt.

Lesa má meira um Herðubreið á Vísindavefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert