1.400 skjálftar frá upphafi hrinunnar

Herðubreið.
Herðubreið. mbl.is/RAX

Alls hafa 1.400 jarðskjálftar orðið í nágrenni Herðubreiðar síðan hrina hófst þar á laugardaginn. Þar af hafa tæplega 200 orðið frá miðnætti. Fyrir utan stærsta skjálftann upp á 4,1 sem varð á laugardagskvöld hafa tveir mælst yfir 3 að stærð.

Að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er enginn órói þarna. Þó svo að þessi jarðskjálftahrina sé í meira lagi þá komi oft hrinur á þessu svæði.

3,7 stiga skjálfti í Mýrdalsjökli

3,7 stiga jarðskjálfti mældist í Mýrdalsjökli í sunnanverðri Kötluöskju skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Skjálftinn var sá stærsti síðan einn upp á 3,8 mældist þar 16. október síðastliðinn með skjálftahrinu sem fylgdi í kjölfarið. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt skjálftanum sem gekk yfir í nótt.

Kristín Elísa segir engan óróa vera á svæðinu en að vel sé fylgst með gangi mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka