Jana Angulalik, inúískur húðflúrmeistari frá Cambridge Bay í Nunavuk, sjálfsstjórnarsvæði nyrst í Kanda við vesturströnd Grænlands, hafnaði á sjúkrahúsinu á Selfossi í kjölfar kraftmikillar andlegrar athafnar og heilunaraðgerðar.
Ekki hafði þó andlegi hluti athafnarinnar líkamstjón í fór með sér heldur fól athöfnin í sér að Inúítinn var húðflúraður með nál gerðri úr náhvalstönn samkvæmt ævafornum fræðum. Forsaga málsins er sú að Angulalik lagði leið sína til Selfoss til að hitta þar kennara sinn í húðflúrfræðunum, Marjorie Kunaq Tahbone, en sú er af ættbálki Inúpíata, frumbyggja í Alaska.
Hafði Angulalik látið útbúa náhvalsnálina sérstaklega fyrir sig, en draumur hennar frá því hún hóf húðflúrun árið 2017 var að láta flúra sig með slíkri nál við hefðbundna athöfn. Fór þessi forna frumbyggjaathöfn fram á Selfossi af öllum stöðum – enda bær í örum vexti þar sem býsna margt er að gerast þessi misserin.
Kveiktu þær Tahbone eld á quilliq, fornum selaolíulampa Inútía sem einnig getur haft hvalspik sem eldsneyti, og hófu athöfn sína sem Angulalik tjáir kanadíska ríkísútvarpinu CBC að hafi haft á sér sterkan andlegan blæ. „Reyndar náði heilunin kannski ekki nema að litlu leyti í gegn, því allan tímann sögðum við hvor ofan í aðra „Hver þremillinn [e. holy crap], ég trúi ekki að við séum að gera þetta,““ segir Angulalik frá en athöfnin fólst í því að Tahbone flúraði tíu punkta á hönd hennar með hvalstönninni.
Báðar kveða þær flúrlistakonur athöfnina hafa verið mjög fallega en síga tók á ógæfuhliðina morguninn eftir þegar hönd Angulalik tók að bólgna mjög og var að lokum svo komið að hún gat ekki hreyft hana.
Leitaði hún þá til sjúkrahúss byggðarlagsins til skoðunar og var þar tjáð, að hennar sögn, að hún hefði fengið slæma sýkingu. Ákveðið var að senda hana á Landspítalann í Reykjavík þar sem hið sanna kom í ljós. Hluti nálarinnar hafði brotnað og bútur af náhvalstönninni orðið eftir í hendi Inúítans.
Engin húðflúra Tahbone á ferli hennar hafa haft nokkuð þessu líkt í för með sér, eftir því sem Angulalik segir og sjálf hefur Tahbone rætt málið á samfélagsmiðlum þar sem hún kvaðst ekki trúa því að hún hefði ekki sótthreinsað nálina eftir kúnstarinnar reglum. Enda reyndist það ekki orsök vandans.
„Þetta hefur verið fallegt og græðandi [...] en við drógum jafnframt mikinn lærdóm af athöfninni. Nú vitum við það, ef mig fýsir að halda áfram að læra hvernig þessi verk voru framkvæmd í gamla daga með áhöldum þess tíma þarf ég bara að læra hvernig á að vinna þau rétt,“ segir Inúítinn sem er á batavegi eftir atvikið.