Nefnd um eftirlit með lögreglu verður falið viðameira hlutverk en hún gegnir nú, verði frumvarp dómsmálaráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir að lögum. Hálfu stöðugildi verður bætt við nefndina, sem meðal annars er falið eftirlit með aðgerðum lögreglu á grundvelli frumvarpsins sem ganga næst friðhelgi einkalífs.
Er lögreglu samkvæmt frumvarpinu skylt að tilkynna nefndinni þegar eftirliti með einstaklingi er hætt og kanna hvort tilefni sé til að senda mál til héraðssaksóknara, hafi eftirlit ekki verið samkvæmt reglum.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingmaður Framsóknar segist þess fullviss að nefndin geti valdið hlutverkinu. Starfaði hún hjá nefndinni frá 2018 til 2021. „Við vorum alltaf að berjast fyrir því að fá fleiri stöðugildi,“ segir hún og að síðan sé mikið vatn runnið til sjávar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.