Breytt aldursdreifing vegna innflytjenda

Gylfi Magnússon prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. mbl.is/​Hari

„Það hefur mikið verið um það rætt að íslenska þjóðin sé að eldast, þannig að hlutfallslega fleiri eru að fara á eftirlaunaaldur og þá á móti hlutfallslega færri á vinnumarkaði. Það er auðvitað ákveðin áskorun en mér sýnist nú á þessum tölum sem ég byggi á að staðan á Íslandi sé nú alls ekki jafn erfið hvað þetta varðar og víða í nágrannalöndunum,“ segir Gylfi Magnússon prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hann er með fyrirlestur á ráðstefnunni Þjóðarspeglinum XXII á föstudaginn þar sem hann mun fjalla um lýðfræðilegar breytingar og áhrif þeirra á lífskjör í víðum skilningi á Íslandi.

Þótt öldruðum Íslendingum fari fjölgandi hefur fjölgun erlendra innflytjenda yngt …
Þótt öldruðum Íslendingum fari fjölgandi hefur fjölgun erlendra innflytjenda yngt umtalsvert íbúa landsins. Ljósmynd/Colourbox

Minni áskorun með fleiri ungum innflytjendum

Gylfi segir að það skipti verulega miklu máli í þessu samhengi að spár um öldrun íbúa landsins hafa ekki gengið eftir. „Innflytjendur hér á landi hafa haft mikil áhrif á aldursdreifingu þeirra sem búa á landinu. Þeir koma náttúrulega flestir tiltölulega ungir, kannski á þrítugsaldri, sem þýðir að það eru töluvert fleiri á vinnumarkaði heldur en spáð var fyrir tíu, tuttugu árum. Það er minni áskorun að halda hagkerfinu gangandi með fleiri yngri einstaklingum á vinnumarkaði,” segir Gylfi og bætir við að síðan megi líka líta til þess að fólk á þessum aldri er einnig á barneignaraldri sem stuðli enn frekar að breyttri aldursdreifingu.

Ekki hægt að búast við sama hagvexti

Gylfi segir þó að erfitt sé að spá nákvæmlega um það hvernig hluti innflytjenda til landsins muni þróast. „En miðað við hvernig það hefur þróast undanfarinn aldarfjórðung eða svo þá mun íbúum á landinu fjölga allverulega og hlutfall aldraðra ekki hækka jafn hratt og það leit út fyrir. En engu að síður er það áskorun og við getum ekki búist við jafn örum hagvexti eins og á 20. öldinni, meðal annars út af þessum lýðfræðilegu þáttum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert