Ekki vitað hverjir réðust á drengina í Kópavogi

Ráðist var á tvo 14 ára drengi á leið úr …
Ráðist var á tvo 14 ára drengi á leið úr bíó á laugardagskvöldið. mbl.is/Eggert

Ekki er vitað um deili á meintum gerendum í líkamsárás sem átti sér stað í Kópavogi á laugardagskvöld þar sem tveir 14 ára drengir á rafhlaupahjóli voru eltir uppi, hrint af hlaupahjólinu, og lamdir.

Ráðist var á tvo fjór­tán ára drengi að til­efn­is­lausu í Kópa­vogi á laugardagskvöldið. Dreng­irn­ir, sem voru á leið úr bíó, voru sam­an á raf­hlaupa­hjóli þegar árás­ar­menn­irn­ir keyrðu á eft­ir þeim á vespu, hrintu þeim af hjól­un­um og létu högg­in dynja á þeim. 

Þórður Heiðar Þór­ar­ins­son, faðir ann­ars drengs­ins sem lenti í árás­inni, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að dreng­irn­ir hafi báðir þurft að þola þung högg og er son­ur Þórðar með glóðar­auga og stóra kúlu á enn­inu.

„Vespugengi“ ekki þekkt vandamál

Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir málið vera í rannsókn. Hann segir að ekki hafi neinn verið handtekinn og ekki er vitað um hverjir meintir gerendur eru. „Það er það sem við erum að rannsaka,“ segir Heimir.

Heimir segir atburðarrásina í skýrslunni um málið vera í samræmi við lýsingar föður annars drengsins sem kom fram í gær.

„Annar þeirra ber þess merki um að hafa lent í átökum eða verið ráðist á.“

Heimir segir „vespugengi“ ekki vera þekkt vandamál á höfuðborgarsvæðinu þó það komi upp einangruð tilvik þar sem gerendur eru á vespum eða öðrum farartækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert