Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó, segir í samtali við mbl.is að hugmyndir séu um að bjóða út leiðir Strætó samhliða því þegar nýjar leiðir Borgarlínu verði teknar í gagnið. Ákvörðunin sé þó í höndum sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu þar sem málið er í skoðun.
„Ég hef sagt það áður og fleiri að menn hafa stundum horft til þess að bjóða út samhliða því sem borgarlínuáfangarnir koma inn. Þeir verða að koma inn til ársins 2032,“ segir Jóhannes.
Um helmingur strætisvagna eru nú þegar í rekstri annars staðar en hjá Strætó BS. Magnús Örn Guðmundsson, stjórnarformaður Strætó, sagði í síðustu viku að við blasi að bjóða út rekstur Strætó.
Jóhannes segir ákvörðunina um hvort bjóða eigi út leiðir Strætó vera í höndum stjórnmálamanna höfuðborgarsvæðisins. Útboð hafi örugglega verið rætt í árátugi.
„Á Norðurlöndunum fóru þau í að bjóða út akstur og eiga þá ekki sjálf vagna, upp úr 1990 og eitthvað. Ætli umræðan hafi ekki byrjað þá á Íslandi,“ segir Jóhannes.
„Menn hafa verið að skoða þetta fram og til baka en ekki tekið neina endanlega ákvörðun um annað en að hafa þetta svipað og þetta hefur verið, sem hefur verið í kringum 50%.“
Hann segir það myndi taka að minnsta kosti þrjú ár að raungerast eftir að ákvörðun yrði tekin um að bjóða út leiðir Strætó.
Ef svo yrði myndi „Strætó verða þjónustu- og skipulagsfyrirtæki, það er að segja að selja fargjöldin og að þjónusta viðskiptavini og að hafa eftirlit með verktökum að þeir sinni þeirri vinnu sem Strætó hefur keypt af þeim í gegnum útboð. Það er það módel sem við sjáum mikið á Norðurlöndunum.“
„Ég hef sagt það ef það er ódýrara að gera þetta svona eins og nú er mikil umræða er um þá á náttúrulega að skoða það mjög alvarlega, sérstaklega þegar fyrirtækið er í mjög erfiðri fjárhagslegri stöðu.
Ég vil taka það fram að þetta leysir ekki vandamálið núna og þetta er langur tími sem tekur að bjóða út og velja. Þetta er meira hluti af framtíðar pælingum,“ segir Jóhannes.