Kiwanisklúbburinn Elliði í Reykjavík veitti Píeta-samtökunum einnar milljónar króna styrk á afmælisfundi, sem haldinn var á laugardag. Tilefnið var 50 ára afmæli Kiwanisklúbbsins Elliða, sem var stofnaður 23. október 1972. Benedikt Þór Guðmundsson, stjórnarmaður í Píeta og einn af stofnendum samtakanna, veitti styrknum móttöku.
Klúbburinn Elliði var stofnaður í Breiðholtinu og hefur frá upphafi látið til sín taka þar, meðal annars með bókagjöfum fyrir árangur í lestri í skólum hverfisins og þátttöku í að gefa börnum reiðhjólahjálma.
Stuðninginn við Píeta má rekja til 2017 þegar samtökin voru styrkt á sérstökum viðburði í Kringlunni að viðstöddum forseta Íslands. Kiwanisklúbburinn Elliði hefur í áranna rás gefið um 60 milljónir króna í styrki til góðgerðarmála.