Ekki er langt síðan ritun sögu samkynhneigðra á Íslandi hófst; ekki eru nema fimm ár síðan fyrsta íslenska fræðiritið á því sviði kom út. Í viðtali í Dagmáli segir sagfræðingurinn Hafdís Erla Hafteinsdóttir að ritun sögu sé beitt vopn í baráttu minnihlutahópa til þess að þeir geti gert tilkall til réttinda.
Greinasafnið Svo veistu að þú varst ekki hér: Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi, sem kom út 2017, var fyrsta íslenska fræðiritið á sviði hinsegin sögu, en Hafdís Erla ritstýrði þeirri bók með Ástu Kristínu Benediktsdóttur og Írisi Ellenberger, en auk þeirra eiga greinar í bókinni Kristín Svava Tómasdóttir, Þorsteinn Vilhjálmsson og Þorvaldur Kristinsson.
Hafdís segir að það sé samkynhneigðum mikilvægt að staðsetja sjálfa sig í sögunni. „Saga er alltaf beitt vopn í baráttu minnihlutahópa til þess að þeir geti gert tilkall til réttinda og geta sýnt að „við erum hér og höfum alltaf verið hér“; bæði vegna sjálfsmyndar einstaklinganna og pólitískrar stöðu hópsins. Við sjáum það í því að í fyrstum útgáfum Samtakanna 78 er mikið um sögumola og þar er meðal annars verið að minnast á mennina með bleiku þríhyrningana á tíma sem ég held að fáir viti af þessu á Íslandi almennt.
Í útgáfu samtakanna til að byrja með var mikið rætt um sögu og ákall um að við yrðum að þekkja söguna. Maður heyri það líka enduróma af og til; samtökin loguðu í deilum árið 2016 og lá við klofningi og þá var viðkvæðið líka að einhverjir deiluaðila þekktu söguna ekki söguna nógu vel, því annars myndu þeir taka öðruvísi á málum. Saga er því mikilvæg og merkilegt fyrirbæri, en líka hver segir söguna og hvers vegna hún er sögð.“
— Hvað kemur til að saga hinsegin fólks á Íslandi hefur ekki verið skrifuð fyrr?
„Ég held hún hafi alveg verið skrifuð, en hún var mikið á grasrótarstigi. Það var til að mynda gefin út afskaplega veglegt afmælisrit á afmæli Samtakanna 78 árið 2008 sem varð ákveðinn innblástur fyrir mig og mína kollega. Öll blöð hinsegin daga eru líka stútfull af viðtölum og fróðleik sem fólk úr grasrótinni, sérstaklega Þorvaldur Kristinsson, hefur verið óþreytandi að taka saman. Það var fyrsta skrefið og síðan kemur þessi bók til af áhuga okkar og pælingum. Virðuleg útgáfa eins og Sögufélagið hefði kannski ekkert tekið svona flipp í mál fyrir tuttugu árum, án þess að ég sé að gera því ágæta fólki sem þar vinnur upp einhverjar skoðanir. Við sem komum að Svo veistu þú varst ekki hér erum af þeirri kynslóð sagnfræðinga sem getur farið að skoða hinsegin sögu út frá akademísku sjónarhorni, en ekki bara á grasrótarstigi.“