Ekkert fast í hendi með húsnæði fyrir flóttafólk

Gylfi Þór Þorsteinsson segir að allt það húsnæði sem sé …
Gylfi Þór Þorsteinsson segir að allt það húsnæði sem sé í skoðun gæti hýst allt að 600 flóttamenn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að keppa að því á fullu að fjölga þeim úrræðum sem við höfum til skammtímavistunar fyrir flóttafólk. Þar að leiðandi erum við að skoða töluvert af húsnæði sem gæti komið til greina en það er ekkert fast í hendi með það enn þá,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri teym­is um mót­töku flótta­fólks frá Úkraínu, í samtali við mbl.is.

Í frétt RÚV í morgun kemur fram að ríkið sé í viðræðum um að taka á leigu 10 hús sem gæti hýst allt að 600 flóttamenn.

„Við fáum ábendingar um húsnæði sem við erum að skoða og við leggjum kapp á að reyna að útvega sem mesta húsnæði og þá reynum við að skoða sem mest af því. Þetta er húsnæði víða um land þó mest af því sé á stór-höfuðborgarsvæðinu en það er ekkert fast í hendi.“

„Allt það húsnæði sem við erum að skoða á blaði rúmar kannski um 600 manns en það er ekki þarf með sagt að við tökum öllu húsnæði eða hvort við fáum það,“ segir Gylfi og bætir við að ekki sé í skoðun að taka hefðbundin heimili á leigu.

„Við erum bara að skoða húsnæði sem rúmar helst 50 manns og fleiri. Okkar hlutverk er að hýsa fólkið til skamms tíma í allt að átta vikur. Eftir það á það að vera farið, annað hvort til sveitarfélaganna eða verður á eigin vegum.“

Gætu þurft að deila herbergjum

Gylfi segist vonast til þess að í vikunni verði húsnæði tekið í notkun sem er hugsað sem úrræði fyrir karlkyns flóttamenn sem ferðast einir. Áður hafi hótel verið í húsnæðinu og verða menn almennt einir í herbergjum.

„Þetta eru herbergi en á nokkrum stöðum er ekki ólíklegt að tveir þurfi að gista saman í einhverjum herbergjum,“ segir Gylfi.

Hann segir að enn séu framkvæmdir í húsnæðinu. Það þurfi meðal annars að setja upp öryggiskerfi og tryggja að brunavarnir séu í lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert