„Það er sú von sem ég hef í hjarta“

Konur hafa í gegnum tíðina reglulega fjölmennt í miðbænum á …
Konur hafa í gegnum tíðina reglulega fjölmennt í miðbænum á kvennafrídaginn. Í ár er ekki skipulögð dagskrá, en Kvennréttindafélag Íslands hvetur konur til að ganga út kl. 15:15. mbl.is/Eggert

„Hún hefur skánað, en hún er ekki nógu góð enn þá, við eigum langt í land,“ segir Rut Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands, í samtali við mbl.is, spurð út í stöðuna í áratuga baráttu íslenskra kvenna fyrir jöfnum launum miðað við hitt kynið.

Í dag er kvennafrídagurinn, sem blásið hefur verið til allar götur síðan 1975 og konur hvattar til að ganga út af vinnustöðum á þeim tímapunkti sem þær teljast vinna ólaunað miðað við karlmenn. Í dag er það klukkan 15:15 og hefur tímapunkturinn hægt og bítandi færst síðar á daginn eftir því sem kjarabaráttunni hefur miðað.

„Launamunur í landinu er enn þá 21,9 prósent og stefnir ekki í að hann verði úr sögunni fyrr en árið 2045 ef þetta heldur áfram með sama hraða og hingað til en svo er bara að sjá hvort þetta gerist hraðar og auðvitað vonumst við til þess að þetta verði bara úr sögunni sem fyrst,“ segir Rut.

Rut Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands, segir margt hafa unnist þrátt …
Rut Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands, segir margt hafa unnist þrátt fyrir að langt sé í land og kjarabaráttu kynjanna. Ljósmynd/Aðsend

Yfir 200.000 gengið út

Kvenréttindafélagið hvetur konur, sem fyrr segir, til að leggja niður störf klukkan 15:15. Hefur Rut hugmynd um hvernig þátttakan í þeirri vinnustöðvun hefur verið öll þessi ár? „Ja, ég er nú svo sem ekki með neinar tölur almennt en frá því mótmæli fóru að vera haldin á Austurvelli, sem hefur verið sex sinnum síðan 1975, hafa yfir 200.000 konur gengið út, en auðvitað er þetta misjafnt eftir því hvernig stöðum konur gegna,“ tekur Rut fram.

Í dag er engin skipulögð dagskrá á vegum Kvenréttindafélagsins, að sögn framkvæmdastjórans, en konur, og fólk almennt, sé þess í stað hvatt til að mæta á opnun safns um rauðsokkurnar sem Kvennasögusafnið hafi veg og vanda af.

Safn þetta opnar klukkan 16 í dag og er til húsa í Þjóðarbókhlöðunni. „Þar opnar skjala- og upplýsingavefur um rauðsokkurnar auk þess sem safnið stendur fyrir dagskrá, gamlar rauðsokkur mæta, þessar konur sem ruddu brautina fyrir okkur, og verður að því er ég tel mjög athyglisvert að hlusta á þær,“ heldur Rut áfram.

Gengur bara upp og niður

En hvað telur hún um ártalið 2045, verða laun karla og kvenna jöfn þá eða mun bilið bara færast til?

„Ég er bjartsýn á að við náum að brúa bilið fyrr, það er sú von sem ég hef í hjarta og held áfram að berjast fyrir því,“ segir Rut og bætir því að mjórra hafi orðið á munum og betur gengið eftir að jafnlaunavottunin kom til sögunnar. „Þeirri innleiðingu lýkur núna í ár og við græddum fimm mínútur síðan í fyrra þannig að þetta gengur bara upp og niður milli ára,“ segir Rut Einarsdóttir að lokum, á kvennafrídaginn 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert