Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir ekki standa til að styðja við rekstur Strætó til þess að næturstrætó geti haldið áfram. Reksturinn sé á borði sveitarfélaganna og ríkið beri enga ábyrgð á því. Þá hafi aldrei komið til tals af skipta sér af rekstri Strætó.
Næturstrætó hætti akstri fyrr í mánuðinum. Í tilkynningu frá stjórn Strætó kom fram að ákvörðunin hefði byggst á því að nýtingin væri undir ásættanlegum viðmiðum.
„Í ljósi þessa og fjárhagsstöðu Strætó, samþykkti stjórn Strætó að ekki væri réttlætanlegt að halda áfram akstri næturstrætó um helgar nú að loknum reynslutíma og verður því þeirri þjónustu hætt,“ sagði í tilkynningunni.
Í svari við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar til innviðaráðherra um stuðning við almenningssamgöngur á síðasta þingi kemur fram að kostnaður á farþega árið 2021 vegna almenningsvagna á landsbyggðinni væri 3.503 kr. Til samanburðar er kostnaður á farþega vegna almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu 95 krónur. Þá er ótalið að kostnaður vegna innanlandsflugs er 39.144 kr. á farþega.
Talsvert meira fjármagn á hvern farþega er því varið í rekstur almenningsvagna á landsbyggðinni.
„Rekstur Strætó er á borði sveitarfélaganna og ríkið ber enga ábyrgð á því. Það hefur aldrei komið til tals að skipta sér af rekstri Strætó," segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.
Aðspurður um mikilvægi þess að efla samgöngur og þar með styðja við Strætó ef Borgarlínan á að skila tilætluðum árangri segir Sigurður Ingi að ríkið komi að byggingu Borgarlínunnar, það er stofnkostnaðinum, en sjái ekki heldur um reksturinn á henni frekar en Strætó.