Hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur voru veitt í fyrsta sinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og Vigdísi Finnbogadóttur. Brynja Hjálmsdóttir, skáld og rithöfundur, hlaut verðlaunin.
Samhliða afhendingu viðurkenningarinnar var útgáfu nýrrar bókar fagnað sem ber heitið Ljóðin hennar Vigdísar. Þar hefur Vigdís tekið saman í samvinnu við bókaútgáfuna Sögur öll þau helstu ljóð sem fylgt hafa henni í gegnum ævina.
Við móttöku verðlaunanna sagði Brynja Hjálmsdóttir að það væri draumi líkast að fá viðurkenningu frá Vigdísi Finnbogadóttur. Brynja á núna þriggja mánaða barn og sagðist „alveg upp að olnboga í bleyjum“ og að við þær aðstæður væri auðvelt að gleyma draumum og markmiðum og þeim mun mikilvægara að fá hvatningu sem þessa. „Ég trúi því eins og Vigdís að ljóðið sé framtíðin. Ég veit að Vigdís veit hversu mikilvæg ljóðin eru, og þess vegna er ótrúlega dýrmætt fyrir mig að fá viðurkenningu eins og þessa.“
Brynja las síðan ljóð sitt Ávarp fjallkonunnar, sem fjallkona ársins, Sylwia Zajkowska, flutti á Austurvelli 17. júní sl. Brynja sagðist í því ljóði hafa fengið tækifæri til að yrkja um íslenskuna sem bæði henni og Vigdísi þyki afar vænt um „Íslenskan er svo fjölskrúðug og skrýtin og hún er ekkert sem við stjórnum, heldur lifandi kvikindi.“ sagði Brynja.
Brynja fæddist í Reykjavík árið 1992. Hún stundaði nám í kvikmyndafræðum og er með BA gráðu þaðan og einnig meistaragráðu í ritlist. Ýmis ljóð og sögur hafa birst eftir hana í safnbókum og tímaritum á borð við Tímarit Máls og menningar og Són.
Árið 2019 kom fyrsta bók hennar, Okfruman, og var m.a. valin ljóðabók ársins af bóksölum og hlaut þar að auki tilnefningu til Fjöruverðlauna og Rauðu hrafnsfjaðrarinnar. Bókinni var meðal annars lýst sem „einni áhugaverðustu ljóðabók ársins“ í ritrýni Soffíu Auðar Birgisdóttur, sem sagði jafnframt: „Sjaldgæft er að sjá svo sterkt byrjandaverk sem þessa bók“. Í fyrra kom svo út bókin Kona lítur við sem fékk tilnefningu til ljóðaverðlauna Maístjörnunnar. Í ár hlaut Brynja Ljóðstaf Jóns úr Vör, fyrir ljóðið Þegar dagar aldrei dagar aldrei.