Ekki hægt að treysta á varnir ESB

Njáll Trausti og Pekka Haavisto.
Njáll Trausti og Pekka Haavisto. Ljósmynd/Aðsend

Spurður hvers vegna Finnland hafi sótt um inngöngu í Atlantshafsbandalagið, þegar það er nú þegar í Evrópusambandinu og verndað af 42.7 grein sambandssáttmálans, svaraði utanríkisráðherra landsins, Pekka Haavisto, á þann veg að ekki væri hægt að treysta á þá grein.

Að baki henni séu hvorki innviðir, né hermenn og engar heræfingar. Það sé því ekki fullnægjandi fyrir Finnland að tilheyra Evrópusambandinu, til þess að tryggja varnir landsins.

Spurningin var borin upp við ráðherrann á Rose-Roth ráðstefnu NATO-þingsins í Helsinki þar sem rætt var um innrás Rússa í Úkraínu, loftslagsbreytingar og þá umbreytingu sem er að verða á Norðurlöndum í tengslum við inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið.

Lönd utan ESB bera NATO uppi

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, er viðstaddur ráðstefnuna. Þótti honum þessi afstaða Pekka Havistö, utanríkisráðherra Finnlands, athyglisverð og bar þá sjálfur sömu spurningu upp við sendiherra Svíþjóðar á NATO-þinginu, sem tók undir þessi sjónarmið, að hans sögn.

Eftir að Svíar og Finnar hafa gengið inn í Atlantshafsbandalagið, verða 23 af 27 Evrópusambandsríkja, orðin aðildarríki NATO, en með Svíþjóð og Finnlandi verða NATO-ríkin 32 talsins. „Á sama tíma kemur 80 prósent af því fjármagni sem fer í varnaröryggismál innan NATO, frá þeim þjóðum sem ekki tilheyra Evrópusambandinu.“

Njáll bendir á að stjórnmálamenn úr Evrópusinnuðum flokkum hafi ítrekað haldið því fram að öryggismálum Íslands væri betur borgið, ef Íslands gengi inn í Evrópusambandið. Lögðu þingmenn Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar fram þingsályktunartillögu á Alþingi í lok september, um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi framhald viðræðna við Evrópusambandið. Umræða vegna þessa stóð yfir í tæpar sex klukkustundir.

Í tillögunni kemur fram að brýnt sé að horfa til þess að Ísland auki áhrif sín með því að fá sæti við borið í Evrópusambandinu. Líklegt sé að varnar- og öryggismál hljóti aukið vægi í Evrópusamvinnu, meðal annars vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Mikilvægt sé því að Ísland sé með í áætlunum Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum með þeim þunga sem fylgir fullri aðild að sambandinu, strax frá byrjun. Ljóst sé að því myndi fylgja frekari öryggisrtygging gagnvart þeim áhættuþáttum sem landið sé annars illa tryggt fyrir. Án aðildar að ESB njóti Íslendingar ekki slíkrar tryggingar.

Í grein 42.7 sem fjallar um gagnkvæmar skyldur aðildarríkja ESB í varnarmálum, kemur fram að komi upp sú staða að aðildarríki Evrópusambandsins verði fyrir vopnaðari árás á eigin landsvæði, beri önnur aðildarríki sambandsins skyldu til þess að rétta fram aðstoð, eftir fremsta megni. Ekki er ætlast til þess að ákvæði hafi áhrif á varnar- eða öryggismálastefnu ríkjanna.

Þá er vísað til þess að skuldbindingar og samvinna á umræddu sviði, skuli vera í samræmi við skuldbindingar þeirra ríkja sem eigi aðild að Atlantshafsbandalaginu, enda sé sú aðild grundvöllur sameiginlegra varna þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert