Stjórn Ferðafélags Íslands hefur boðað til félagsfundar næsta fimmtudag kl 20:00 á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík. Á fundinum verður farið yfir stöðu Ferðafélags Íslands og síðan önnur mál. Í tilkynningu frá félaginu er beðið um að fundargestir framvísi gildu félagsskírteini við innganginn og þeir þurfa að hafa greitt árgjald félagsins á árinu.
Mikill styr hefur staðið um málefni Ferðafélagsins og hafa ásakanir gengið fram og til baka. Anna Dóra Sæþórsdóttir sagði af sér forsæti félagsins og sagði ekki tekið almennilega á einelti innan vinnustaðarins eða málum er vörðuðu kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi. Þessu hafnaði stjórn félagsins og stigu margir fram af því tilefni, m.a. Sigrún Valbergsdóttir, varaformaður félagsins, Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri félagsins og Tómas Guðbjartsson læknir og stjórnarformaður í félaginu.