Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur ákveðið að færa verkefni á sviði brunabótamats á starfsstöð HMS á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, verða flutt til Akureyrar og nýtt teymi stofnað um verkefnin, en störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytingarnar á fundi í starfsstöð HMS á Akureyri í dag og sagði meðal annars að þær væru fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.
Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að breytingarnar séu hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf.
„Við ætlum að festa í sessi öflugt teymi á Akureyri sem fer með ábyrgð og framkvæmd skráningar fasteigna á öllu Íslandi. Það mun sjá um brunabótamat og endurskoða framkvæmd þess allt frá lagalegri umgjörð til tæknilegrar útfærslu.
Samhliða ætlum við að hefja átaksverkefni við afmörkun eigna í landeignaskrá og birta í stafrænni kortasjá HMS. Við stefnum fljótlega að því að opna vefsjá landeigna þar sem afmörkun og þinglýst eignarhald lands verður gert aðgengilegt öllum án gjaldtöku,“ er haft eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra HMS.
Er þetta ekki í fyrsta skipti sem HMS flytur verkefni til á milli starfsstöðva, en árið 2020 var brunavarnasvið flutt til Sauðárkróks. Þar eru nú um 27 störf en auk brunavarna er þar unnið í þjónustuveri og við umsýslu með greiðslu húsnæðisbóta.