Í fjórða skipti fyrir dóm vegna skattsvika

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara vegna meiri háttar brota á skattalögum með því að hafa í rekstri einkahlutafélags, þar sem hann var daglegur stjórnandi og skráður stjórnarformaður, komist hjá því að greiða samtals 73 milljónir í skatta.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem maðurinn hefur komist í kast við lögin þegar kemur að eigin rekstri og skattalagabrotum. Árið 2011 hlaut hann tveggja mánaða dóm fyrir hlut sinn í skattalagabroti ásamt þremur öðrum og var gert að greiða 2,6 milljónir í sekt.

Ári síðar hlaut hann árs dóm fyrir skattalagabrot hjá sama verktakafyrirtæki, en í þetta skiptið var hann dæmdur til að greiða 57 milljónir í sekt. Árið 2015 var hann svo á ný dæmdur fyrir skattalagabrot í tengslum við rekstur verktakafyrirtækis, en í þetta skiptið hlaut hann 18 mánaða dóm og var gert að greiða 32,5 milljónir.

Í ákærunni sem birt hefur verið núna kemur fram að maðurinn hafi ekki greitt 46,5 milljónir í virðisaukaskatt frá árinu 2020 og að hann hafi ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu launa upp á 26,6 milljónir á sama tímabili.

Málið var þingfest í síðustu viku í Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka