Icelandair braut ekki lög um stöðu trúnaðarmanna eða öryggistrúnaðarmanna með uppsögn Ólafar Helgu Adolfsdóttur í ágúst í fyrra, en hún hafði starfað í hlaðdeild fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli. Ólöf Helga var á þessum tímapunkti ritari í stjórn Eflingar og hefur síðan verið áberandi þegar kemur að málefnum félagsins. Hún bauð sig meðal annars fram til forseta ASÍ á þingi þess fyrir skemmstu, en þingi Alþýðusambandsins, og þar með kosningu forseta, var að endingu frestað fram á næsta ár.
Í dómi Félagsdóms, sem mbl.is hefur undir höndum, kemur fram að þó að Ólöf Helga hafi verið bæði trúnaðarmaður og öryggistrúnaðarmaður hjá félaginu áður hafi kjörtímabili hennar sem trúnaðarmanns verið lokið án þess að hún væri endurkjörin og að umboð hennar og annarra í öryggisnefnd Air Iceland Connect hafi fallið niður þegar félagið var lagt niður og varð aftur hluti af Icelandair í byrjun árs 2021. Með þessu hafi hún því ekki notið sérstakrar verndar sem trúnaðarmaður.
Fram kemur í dóminum að ástæða uppsagnarinnar sé nokkuð á reiki. Icelandair tilgreini trúnaðarbrest og að ástæðan sé framkoma hennar í garð samstarfsmanna í hlaðdeildinni og starfsmanna í farþegaafgreiðslu.
Rök stéttarfélags Ólafar Helgu voru á móti þau að hún hefði, eftir að nýr stöðvarstjóri hóf störf, haft afskipti af tveimur málum. Annað þeirra varðaði flutning á verkefnum farþegaafgreiðslu til hlaðdeildar en í hinu tilfellinu var um að ræða fyrirhugaðar vaktabreytingar hjá hlaðdeildinni. Ólöf Helga leitaði í bæði skiptin til Eflingar vegna málsins.
Mótmælti Ólöf Helga því að hún hefði ekki verið trúnaðarmaður og vísaði til þess að hún hefði verið kosin áfram af meirihluta starfsmanna. Þá hefðu stjórnendur fyrirtækisins meðal annars snúið sér til hennar sem trúnaðarmanns eftir að fyrra tímabilinu lauk og vísað var til þess að bréf frá mannauðsdeildinni til trúnaðarmanna hefði verið sent í byrjun árs 2021. Þá hefði hún verið milliliður í fyrrnefndum málum og verið tilgreind sem trúnaðarmaður á innri síðu Icelandair.
Icelandair vísaði hins vegar til þess að það væri skýrt í lögum um trúnaðarmenn að upplýsa skuli um hverja kosningu og það hafi ekki verið gert í þetta skiptið. Þannig er m.a. vísað til þess að stöðvarstjórinn hafi fyrir uppsögnina spurt mannauðsdeildina hvort Ólöf hefði nokkuð áfram verið kjörin sem trúnaðarmaður. Svarið var á þann veg að tímabili hennar hefði lokið árið áður.
Í niðurstöðu Félagsdóms kemur fram að ágreiningslaust væri að kosning hafi ekki farið fram um síðara kjörtímabilið. Þá hefði stéttarfélagið ekki látið vita um neina tilnefningu. Þá hefði upplýsingum um áframhaldandi störf hennar sem trúnaðarmanns ekki verið komið á framfæri.
Segir í dóminum að skýr ákvæði gildi um aðferð við val á trúnaðarmönnum samkvæmt kjarasamningi og ekki sé hægt að líta svo á að Ólöf hafi haft stöðu trúnaðarmanns þegar henni var sagt upp. Engu breyti þó að einhverjir starfsmenn og jafnvel tilteknir stjórnendur kunni að hafa litið á hana sem slíkan. Þá segir að vinna hennar vegna ágreinings starfsmanna hlaðdeildar við fyrirtækið hafi ekki skapað henni stöðu trúnaðarmanns.
Að lokum segir að þó að upphaflegt kjörtímabil hennar sem öryggistrúnaðarmanns hafi enn átt að vera í gildi þegar henni var sagt upp í ágúst 2021, þá hafi umboð hennar og öryggisnefndarinnar fallið niður þegar Air Iceland Connect varð aftur beinn hluti af Icelandair. Því sé niðurstaðan sú að Ólöf Helga hafi ekki notið sérstakrar verndar sem trúnaðarmaður eða öryggistrúnaðarmaður þegar henni var sagt upp.