Sýningum á leiksýningunni Snákinum hefur verið frestað hjá Borgarleikhúsinu þar sem leikara úr sýningunni var vísað úr landi. Þetta staðfestir Hlynur Páll Pálsson, samskiptastjóri Borgarleikhússins, í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá.
Snákurinn er samstarfsverkefni Rauða krossins og Borgarleikhússins sem snýst um hugrekki þess að bera sig eftir björginni þar sem flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd taka þátt.
Spurður hvernig þátttakan hafi verið segir Hlynur að þátttakan hafi verið mjög góð og að vel hafi verið mætt á sýningar.
„Það hefur verið tekið frábærlega í sýningarnar og þegar við sýndum þetta í fyrra gekk þetta mjög vel. Markmiðið með sýningunum er þó fyrst og fremst að hjálpa fólkinu að setjast að í landinu og upplifa að þau séu velkomin,“ segir Hlynur.