Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráherra, hefur sent haghöfum í menntakerfinu boð þar sem þeir eru hvattir til að bjóða sig fram og taka þátt í að móta skólaþjónustu til framtíðar, en stutt er síðan ráðherrann kynnti að leggja ætti niður Menntamálastofnun í núverandi mynd og reisa hana upp að nýju samhliða áformum um að setja ný lög um heildstæða skólaþjónustu á öllum stigum leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Í tilkynningu á vef ráðuneytisins kemur fram að samráð við hlutaðeigandi gegni lykilhlutverki í ferlinu. Þá var einnig nýlega greint frá því að áform um nýju heildarlögin hafi verið birt á samráðsgátt stjórnvalda. Getur almenningur og aðrir hagaðilar sent þar inn umsagnir um fyrirhuguð áform, en tímaramminn nær aðeins til 31. október.
Þeir haghafar sem ætla að bjóða sig fram í að taka þátt í að móta skólaþjónustuna hafa hins vegar til 4. nóvember til að skrá sig, en Ásmundur kallar meðal annars eftir samráði við börn og ungmenni, foreldra, kennara, stjórnendur og starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva, skólaþjónustu og annarra þjónustukerfa.