Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að bæta 200 milljónum króna við þá fjárhæð sem Orkusjóður hefur til úthlutunar á þessu ári. Frá þessu greindi ráðherra á fundi Orkusjóðs og Orkustofnunar í dag.
Í ávarpi Guðlaugs Þórs kom fram að aldrei hafi verið úthlutað hærri fjárhæð úr Orkusjóði en á þessu ári, en úthlutanir ársins nema alls 1,1 milljarði króna.
Mikil eftirspurn hefur verið eftir styrkjum úr sjóðnum, en alls bárust um 200 umsóknir að upphæð 4 milljarða króna vegna úthlutunar ársins 2022 og hefur þegar verið úthlutað styrkjum vegna 137 verkefna. Sú viðbót sem sjóðurinn fær verður úthlutað til að styrkja enn frekar við verkefni sem skiluðu inn umsókn, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.
„Sem betur fer er áhugi fjárfesta og frumkvöðla mikill, en þeir leggja til meirihluta fjármagnsins til verkefna á móti sjóðnum. Við þurfum líka að virkja áfram þennan slagkraft sem þar er að finna. Það er líka afar hvetjandi að sjá áhugann á orkuskiptum og þann fjölda raunhæfra verkefna sem í dag voru kynnt og þá grósku og fjölbreytni sem þau einkennir. Verkefnin eiga mörg hver það sammerkt að þau eru strax frá gangsetningu að vinna að orkuskiptum.
Það er sérstaklega ánægjulegt að geta bætt enn frekar í sjóðinn enda bárust mjög margar góðar umsóknir að þessu sinni. Þá er ekki síður ánægjulegt hve vel hefur tekist að styðja við dreifingu verkefna um land allt við úthlutun styrkja. Enda mjög mikilvægt að enginn landshluti verði eftir þegar kemur að grænu orkuskiptunum,“ er haft eftir Guðlaugi Þór.
Samkvæmt tölfræði sem ráðherra lét taka saman fyrir fundinn, voru konur aðeins 16% umsækjenda og sagði hann það hlutfall ekki endurspegla samfélagið nógu vel. Ráðherra hvatti fólk af öllum kynjum að kynna sér sjóðinn og sækja um á næsta ári.