Svandís kallar eftir upplýsingum frá MAST

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur kallað eftir upplýsingum frá Matvælastofnun (MAST) um framkvæmd eftirlits og verkferla vegna velferðar dýra þegar grunur leikur á að umráðamenn séu ekki að uppfylla ákvæði laga, hvort sem um er að ræða almennt eftirlit eða samkvæmt ábendingum sem berast stofnuninni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Þá óskar ráðherra einnig eftir upplýsingum um hvort stofnunin telji skort á heimildum í lögum til að tryggja velferð dýra og grípa til viðeigandi ráðstafana þegar aðstæður krefjast.

Jafnframt er farið fram á að stofnunin upplýsi Svandísi um stefnu sína hvað varðar upplýsingamiðlun til almennings meðan aðgerðir sem snúa að velferð dýra standa yfir og eftir að þeim lýkur.

13 hross aflífuð

MAST hefur sætt mikilli gagnrýni síðustu vikur eftir að Steinunn Árnadóttir, hestakona og íbúi í Borgarnesi, greindi frá vanrækslu hrossa í hesthúsahverfi í grennd við bæinn. Í viðtali við mbl.is sagði hún að MAST hefðu margsinnis borist tilkynningar vegna málsins en lítið gert. Dýralæknir hjá stofnuninni sagði þá að málið væri í ferli.

Í síðustu viku voru 13 hross tekin af umráðamanninum og þau aflífuð. Var það mat MAST að ástand skepn­anna væri svo al­var­legt að aðgerðir þyldu ekki bið. 

Tíu hross til viðbót­ar voru enn met­in í viðkvæmu ástandi vegna rýrs holdafars en þrátt fyr­ir það var þeim skilað til umráðamanns ásamt þeim hross­um sem MAST taldi vera í ásætt­an­leg­um hold­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert