Tuttugu og sjö ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fimm þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og fjórir hafa aldrei öðlast ökuréttindi. Einn ökumannanna var á stolnum bíl og annar með barn í bílnum segir á vef lögreglu.
Meira en fjórðungur ökumanna eða 29% óku of hratt eða yfir afskiptahraða á Sundlaugavegi í Reykjavík í dag og voru brot 57 ökumanna mynduð.
Þá voru brot 150 ökumanna mynduð á Vesturlandsvegi í Reykjavík í gær þar sem meðalhraði hinna brotlegu var 94 km/klst en þarna er 80 km hámarkshraði. Sextán óku á 100 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 112.