Ólöf Helga Adolfsdóttir segir nýfallinn dóm Félagsdóms, sem kvað á um að Icelandair hafi ekki brotið lög um stöðu trúnaðarmanna eða öryggistrúnaðarmanna þegar henni var sagt upp í ágúst í fyrra, hafa komið sér á óvart.
„Mér þykir þetta fyrst og fremst leiðinlegt og kom mér á óvart. Þetta þýðir að við þurfum að passa betur upp á að trúnaðarmenn séu kjörnir á tveggja ára fresti og að réttur þeirra sé tryggður betur í kjarasamningum. Auk þess tel ég okkur geta lært mikið af þessu máli en ástæðan fyrir verndinni er til þess að einhver sé tilbúinn til þess að sinna þessu starfi. Það vill náttúrulega enginn missa vinnuna við að standa með réttindum sínum og annarra,“ segir Ólöf Helga sem er ritari í stjórn Eflingar.
Hún er jafnframt í framboði til forseta Alþýðusambands Íslands.
Ólöf Helga naut ekki sérstakrar verndar sem trúnaðarmaður en í dómi félagsdóms kom fram að þó að hún hafi verið bæði trúnaðarmaður og öryggismaður hjá félaginu áður hafi kjörtímabili hennar verið lokið án þess að hún hefði fengið endurkjör. Ólöf telur nauðsynlegt að ræða annað hvort lengingu tímabils trúnaðarmanna eða áframhaldandi vernd.
„Ég tel aukna vernd fyrir trúnaðarmenn vera eitthvað sem þarf að ræða innan stéttarfélaganna. Við þurfum annað hvort að lengja tímabil trúnaðarmanna eða a.m.k. þannig að þeir hljóti áframhaldandi vernd í einhvern tíma. Ef maður er ekki trúnaðarmaður eða hlýtur áframhaldandi vernd þá er maður búinn að standa í einhverjum leiðindamálum og missir síðan verndina. Ég tel þetta vera eitthvað sem stéttarfélögin þurfi að leggjast yfir og skoða,“ segir Ólöf.
Ólöf telur gríðarlega mikilvægt að stéttarfélögin fylgist með skipunartíma trúnaðarmanna og ýti á eftir kosningu.
„Þetta er kjarasamningsmál og er á borði aðildarfélaganna og Starfsgreinasambandsins til dæmis. Fyrsta skrefið væri að ræða þetta í samninganefndum á vegum Starfsgreinasambandsins og reyna að auka verndina þannig. Það er jafnframt mjög mikilvægt að stéttarfélögin sjálf fylgist vel með skipunartíma trúnaðarmanna og þegar tvö ár eru liðin þá sé ýtt á kosningu,“ segir Ólöf.