Tundurdufl kom í veiðarfæri togskips

Tundurduflið sem festist í veiðarfærum togskipsins.
Tundurduflið sem festist í veiðarfærum togskipsins. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Séraðgerðarsveit Land­helg­is­gæsl­unn­ar var kölluð út í gær vegna djúp­sprengju sem hafði komið í veiðarfæri tog­skips. Um var að ræða breskt tund­ur­dufl frá seinni heims­styrj­öld­inni en enn þann dag í dag kem­ur fyr­ir að um 80 ára göm­ul vígtól komi í veiðarfæri ís­lenskra fiski­skipa.

Að eyða slík­um sprengj­um get­ur þó reynst stór­hættu­legt, sér­stak­lega í ljósi ald­urs þeirra og hugs­an­legr­ar tær­ing­ar. 

Í til­kynn­ingu Land­helg­is­gæsl­unn­ar seg­ir að séraðgerða- og sprengju­eyðing­ar­sveit hafi lagt af stað til Siglu­fjarðar eft­ir að til­kynn­ing­in um sprengj­una hafi borist. Skipið hafði verið á sigl­ingu norður af land­inu og áætlaði að landa í bæn­um.

Sveit­in var kom­in á Siglu­fjörð í gær­kvöldi og hélt strax til móts tog­skipið á slöngu­bát.

Þegar klukk­an var far­in að ganga tvö í nótt var sveit­in kom­in um borð og hífði djúp­sprengj­una sem reynd­ist vera tund­ur­dufl í bát­inn og fór með það í land. Um há­deg­is­bil í dag var síðan farið með tund­ur­duflið út á Siglu­nes þar sem því var eytt. 

Þá hafði slökkviliðsstjór­inn á Sigluf­irði einnig sam­band við séraðgerðasveit­ina sem þá var stödd í bæn­um og tjáði sprengju­sér­fræðing­un­um að í morg­un hafi hann fengið vitn­eskju um ára­tugagaml­ar hvell­hett­ur fyr­ir dína­mít sem nauðsyn­legt væri að eyða.

Sveit­in brást við beiðninni og eyddi hvell­hett­un­um ör­ugg­lega. „Dag­ur­inn á Sigluf­irði var því nokkuð anna­sam­ur fyr­ir sprengju­sér­fræðing­ana,“ seg­ir í til­kynn­ingu Land­helg­is­gæsl­unn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert