Vegfarandi tilkynnti um hóp ungmenna „stappa” á Hopp-rafskútu í umdæmi lögreglunnar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ.
Hópurinn kannaðist ekki við neitt þegar lögregla kom á vettvang. Sökum aldurs voru afskipti lögreglu tilkynnt foreldrum og barnavernd.
Tilkynnt var um slagsmál við fjölbýlishús í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Þrír voru sagðir hafa ráðist á einn. Engar kröfur voru gerðar að svo stöddu og ekki var þörf á sjúkrabíl, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Ökumaður var handtekinn í Reykjavík grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var ekki með skilríki og reyndi að gefa upp kennitölu annars manns. Hann var látinn laus eftir afreiðslu málsins.
Tveir til viðbótar voru handteknir vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.
Tilkynnt var um þjófnað á fatnaði úr verslun. Lýsing var til staðar af geranda, auk þess sem myndskeið fundust úr eftirlitsmyndavélakerfi.
Lögregla var kölluð til vegna umferðaróhapps eftir að ekið var á vegrið. Engin meiðsli urðu á fólki.
Sömuleiðis var tilkynnt um þjófnað úr matvöruverslun. Gerandinn var á staðnum og var málið afgreitt þar.