Frá miðnætti hafa rúmlega 200 jarðskjálftar mælst við Herðubreið, flestir frekar litlir. Skjálftavirknin jókst aftur á svæðinu um fimmleytið í morgun eftir að hafa dottið lítillega niður.
Stærsti skjálftinn mældist 2,3, miðað við óyfirfarnar tölur, og varð hann klukkan sjö í morgun, að sögn Lovísu Mjallar Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftahrinan hófst á laugardagskvöld með skjálfta upp á 4,1 stig, sem er sá stærsti við Herðubreið frá upphafi mælinga.