Aðeins 1% kvenna af erlendum uppruna í stjórnendastöðu

Berglind Hólm kynnir niðurstöður rannsóknarinnar.
Berglind Hólm kynnir niðurstöður rannsóknarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menntun kvenna af erlendum uppruna er mun síður metin á vinnumarkaði hér á landi en menntun kvenna af íslenskum uppruna. Þá eru laun þeirra sömuleiðis ekki í samræmi við menntunarstig.

Ríflega helmingur kvenna af erlendum uppruna sem sinna þjónustu-, umönnunar- eða sölustörfum eru með háskólagráðu og það sama á við um 23% þeirra kvenna í ósérhæfðum störfum.

Þá sinnir einungis 1% kvenna úr þessum hópi stöðum stjórnenda á vinnustöðum, samanborið við 11% kvenna af íslenskum uppruna, og eru jafnframt minni líkur á að þær starfi í skrifstofustörfum eða hjá hinu opinbera ef miðað er við sama hóp.

Þetta er hluti af frumniðurstöðum rannsóknar sem gerð var á stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði.

Ríflega þúsund konur tóku þátt

Úrtak rannsóknarinnar voru þrjú þúsund konur en 1251 kona á aldrinum 25 til 64 ára tók þátt í að svara spurningalistum fyrir rannsóknina sem var lagður fyrir í vor.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, kynnti niðurstöðurnar í erindi á Jafnréttisþingi sem fór fram í Hörpu í dag. 

Þegar talað er um konur af erlendum uppruna er átt við um konur sem eru núna með íslenskan ríkisborgararétt en voru það ekki áður, og konur sem eru ekki með íslenskan ríkisborgararétt en vinna hér á landi

Fastar í láglaunastörfum

Í erindinu vakti Berglind athygli á niðurstöðum fyrri rannsókna sem benda til þess að konur af erlendum uppruna séu gjarnan fastar í láglaunastörfum, oft þrátt fyrir hátt menntunarstig, vegna fordóma, takmörkuðu aðgengi að tungumálakennslu og skort á tengslaneti. Þá séu þær ekki jafn líklegar að fá störf í samræmi við starfsreynslu og menntun þar sem erfitt getur reynst að fá háskólagráðu frá skóla erlendis viðurkennda á íslenskum vinnumarkaði.

Að sögn Berglindar ríma niðurstöður rannsóknarinnar, sem vísað er til hér að ofan, við fyrri rannsóknir, að því undanskildu að áður hefur verið haldið fram að konur af erlendum uppruna séu líklegri til að vera í hlutastarfi, frekar en fullu starfi, miðað við konur af íslenskum uppruna. Samkvæmt frumniðurstöðum rannsóknarinnar á hið öfuga við.

„Kannski kom þetta ekki beint á óvart en það var samt sláandi að sjá þetta svona svart á hvítu,“ segir Berglind í samtali við mbl.is um niðurstöðurnar og bætir við að rannsóknarhópurinn stefni nú að því að halda áfram með djúpviðtöl þar sem fókusinn verður á konur í láglaunastörfum.  

Líklegri til að sinna ósérhæfðum störfum

Um 40% kvenna af erlendum uppruna hér á landi hafa lokið háksólagráðu. Þrátt fyrir það sinna 50% þeirra  þjónustu-, umönnunar- og sölustörfum, til samanburðar við 28% kvenna af íslenskum uppruna.

Þá eru um 34% kvenna af erlendum uppruna í ósérhæfðum störfum samanborið við 5% kvenna af íslenskum uppruna.

Þegar kemur að sérfræðistörfum er hlutfall kvenna af íslenskum uppruna þó mun hærra en kvenna af erlendum uppruna, eða 36% samanborið við 5%. Það sama á við um störf tækna og sérhæfðs starfsfólks, þar sem hlutfallið er 10% á móti 3%.

Vísbendingar um takmarkaðan aðgang að velferðarkerfinu

Í frumniðurstöðum rannsóknarinnar kemur jafnframt fram að konur af erlendum uppruna séu síður líklegri til þess að vera á örorkubótum. Þær séu þó líklegri til að upplifa alvarleg eða mjög alvarleg klínísk einkenni kvíða og/eða streitu samanborið við konur af íslenskum uppruna.

Að sögn Berglindar er þetta eitt af þeim atriðum sem verður rannsakað nánar en vísbendingar eru um að aðgangur kvennanna að velferðarkerfinu sé takmarkaður.

„Það sem við ætlum helst að væta við er reynsla kvennanna af velferðarkerfinu. Hvað skýrir það að þessar konur séu síður líklegri til að vera á örorkubótum þegar að við sjáum það til dæmis að þær eru að glíma við meiri streitu.“

Konur af erlendum uppruna orðið eftir

Áhersla Jafnréttisþingsins í ár var staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði og virtist rauði þráðurinn í flestum erinda vera sá að hluti kvenna hafi orðið eftir í jafnréttisbaráttunni hér á landi.

Berglind segir þetta í samræmi við rannsóknir á Vesturlöndunum sem „hafa verið að gefa vísbendingar um að það sé einhver gjá milli kvenna.“

„Sumar konur, sem við getum kannski kallað forréttindakonur, eru að upplifa aukið jafnrétti meðal kynjanna á meðan að aðrir hópar upplifa að þeir hafi verið skildir eftir í jafnréttisbaráttunni.“

Til að bæta úr þessi segir Berglind mikilvægt skref að bæta aðgengi að íslenskukennslu en vandamálið megi einnig rekja til fordóma, sem flóknara sé að uppræta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert