Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir íþróttavísanir á borð við rauð spjöld gera lítið annað en æsa sig upp og gera sig enn forhertari. Þá vakni engin blygðunarkennd eða tilfinning um að hún hafi gert eitthvað rangt heldur þvert á móti kvikni samstundis eldheitar baráttukenndir hinnar arðrændu verkakonu.
„[O]g ég fyllist enn meiri og dýpri löngun til að rísa upp ásamt félögum mínum í stétt verka og láglaunafólks, sækja fram og vinna stóra og magnaða sigra á þeim eina keppnis-velli sem ég viðurkenni; keppnis-velli þeim þar sem að vinnuaflið mætir arðræningjunum. Áfram vinnuaflið!,“ skrifar Sólveig Anna í færslu á Facebook og vísar þá til uppákomu á Jafnréttisþinginu sem fór fram fyrr í dag í Hörpu.
Þar lyftu fjórar konur, sem Sólveig kallar „fulltrúa skrifstofuvirkisins og háskólamenntaðar millistéttar“, upp rauðum spjöldum og stórum klút meðan formaður Eflingar var í ræðustól og hélt erindi um efnahagslega kúgun verka og láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði.
„Við erum að dæma þennan leik og þú færð rauða spjaldið,“ stóð á klútnum sem konurnar í salnum lyftu upp. Að því loknu gengu þær út af þinginu.
Í færslu Sólveigar segir að konurnar hafi ekki haft áhuga á að hlusta á erindi sitt um stöðu arðrænds kvenvinnuafls höfuðborgarsvæðisins enda skipti hlutskipti þess hóps þær engu máli „og hefur aldrei gert.“
Samkvæmt frétt Stundarinnar voru „fulltrúarnir“ sem um ræðir þær Phoenix Jessica Ramos, Agnieszka Sokolowska, Cristina Milcher og Wiktoria Joanna Ginter. Með þessu vildu konurnar mótmæla því að Sólveig Anna hafi verið fengin til að ræða málefni erlendra kvenna á vinnumarkaði en eins og frægt er stóð formaðurinn fyrir hópuppsögn á skrifstofu Eflingar á síðasta ári.
Var þá öllu starfsfólki Eflingar sagt upp og einungis hluti ráðinn til baka. Var íslenskukunnátta eitt af skilyrðunum sem þurfti að uppfylla til að geta fengið starf á skrifstofunni. Hópuppsögnin vakti mikla athygli og voru margir sem gagnrýndu þessa aðgerð.
Sólveig Anna virtist meðvituð um að hópuppsögnin hafi verið umdeild þegar hún tók til máls á þinginu í dag en hún byrjaði erindi sitt á því að segja að boðið um að halda erindi hefði komið á óvart.
Í færslunni sem birtist í dag fer Sólveig um víðan völl og minnist þar m.a. á andúð sína á skipulögðum íþróttum, þá með vísan til rauðu spjaldanna sem fóru á loft. Segist hún hafa lagt þónokkuð á sig á lífsleiðinni til að reyna að eyðileggja gleði fólks yfir þeim.
„Ég hef einu sinni reynt að horfa á fótboltaleik, fyrir nokkrum árum síðan. Þá hafði ég frétt af því að maður að nafni Ronaldo ætlaði að taka þátt, en fram að því hélt ég að Ronaldo þessi væri heimsfrægt, mjög frambærilegt nærfatamódel. Þarna vaknaði áhugi minn en aðeins í skamma stund; mér leiddist svo agalega að ég gafst upp í hálfleik og flutti í höfði mér Reynaldo úr flokknum Fótboltamaður aftur í flokkin Nærfatamódel. Áfram Ronaldo!“
Ef „fulltrúar skrifstofuvirkisins“ hefðu vitað þetta hefðu þeir kannski áttað sig á því að svona íþróttavísanir gera nákvæmlega ekkert annað en að æsa hana upp, skrifar Sólveig Anna.
„Ég tilheyri ekki aðeins sí-minnkandi hópi þeirra sem eitt sinn voru kallaðir anti-sportistar (eða heimsins leiðinlegustu kommúnistar), ég er einnig stoltur meðlimur stéttar alþjóðlegs vinnuafls.“