Bandalagið geti náð betri niðurstöðu

Ragnar Þór Ingólfsson er bæði formaður VR og LÍV.
Ragnar Þór Ingólfsson er bæði formaður VR og LÍV. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru stórfréttir, þegar stærstu landssamböndin innan Alþýðusambandsins fara sameiginlega að borðinu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og LÍV, í samtali við mbl.is um samstarf Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) og Starfs­greina­sam­bands Íslands (SGS).

Samböndin munu koma til með að vinna saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning.

„Þetta þýðir það að viðsemjandinn er mun stærri hópur en tvístraður sem gerir alla nálgun miklu einfaldari fyrir Samtök atvinnulífsins. Þetta er held ég jákvætt fyrir alla að hér sé nægilega stórt og öflugt bandalag til að ná betri niðurstöðu en ég myndi áætla að félögin myndu ná fram færum við hvort í sínu lagi,“ segir Ragnar Þór.

Hefjast handa á morgun

Ragnar Þór segir fyrsta formlega fundinn vera í fyrramálið.

„Þetta leggst ákaflega vel í mig og ég held að þetta séu virkilega jákvæðar fréttir, ekki bara fyrir launafólk heldur líka fyrir efnahagslífið og samfélagið.“

Samningarnir munu ná til hátt í 90 þúsund manns en Ragnar segir Eflingu ekki vera búna að skila inn samningsumboði til Starfsgreinasambandsins.

„Það mun skýrast fljótlega hvort þau komi inn í þennan hóp eða ekki. Þau eru utan hans akkúrat núna en þeim er haldið upplýstum um stöðu mála,“ segir Ragnar Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert