Helstu niðurstöður rannsóknar um upplifun kvenna af erlendum uppruna á frumkvöðlastarfsemi á Íslandi benda til þess að sterkasti hvatinn til frumkvöðlastarfs kvennanna sé að skapa félagslegt virði og gefa til baka til samfélagsins.
Þetta segir Þóra H. Christiansen, aðjunkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Á fimmtudag og föstudag stendur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir ráðstefnunni Þjóðarspegillinn, þar sem fræðafólk í ýmsum greinum hug- og félagsvísinda heldur erindi.
Á ráðstefnunni fjalla Þóra og Erla Sólveig Kristjánsdóttir um rannsókn sína á upplifun kvenna af erlendum uppruna á frumkvöðlastarfsemi á Íslandi. Ýmislegt bendir til þess að sköpunarkraftur og frumkvöðlahugsun sé oft sterkari meðal innflytjenda en annarra. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast skilning á upplifun innflytjendakvenna sem reka eigin fyrirtæki á Íslandi af helstu hvötum og hindrunum í þeirra frumkvöðlastarfi.
„Við höfum skoðað hvernig konur af erlendum uppruna hafa náð langt og hvaða aðferðum þær hafa beitt við það. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fólk af erlendum uppruna fer út í eigin rekstur þar sem það gefst upp á því að rekast alltaf í eitthvert þak og komast ekkert áfram,“ segir Þóra.
Í rannsókninni voru tekin viðtöl við tólf konur sem búið hafa á Íslandi og rekið eigið fyrirtæki í að minnsta kosti tvö ár. Aðspurð um af hverju sköpunarkraftur og frumkvöðlahugsun sé oft sterkari meðal innflytjenda en annarra hópa segir Þóra:
„Þarna er fólk sem kemur með viðskiptahugmynd sem má örugglega að einhverju leyti rekja til þess að þau hafa aðra reynslu og innsýn. Þetta eru alls konar fyrirtæki sem þau eru að koma með, sum eru nýsköpunarfyrirtæki og önnur með vöru og þjónustu sem þau sáu að vantaði hér á markaði.“