„Þetta var ástand sem varði í hálftíma og umferð um völlinn var ekki stöðvuð,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, um sprengjuhótun sem óþekktur einstaklingur birti á Twitter nú síðdegis.
Kvaðst sá ætla að sprengja sig í loft upp á flugvellinum þar sem hann væri staddur, klæddur sprengjuvesti svokölluðu. Segir Guðjón málið nú á borði lögreglunnar á Suðurnesjum en röskun á flugvellinum hafi verið takmörkuð. „Þetta kom helst niður á farþegum sem þurftu að bíða í vélum eftir að hleypt yrði út, en sú bið var ekki meira en tíu mínútur,“ segir Guðjón af sprengjuhótuninni.