Umhverfisstofnun hyggst leggja til að sveitarfélög fái heimild til að leggja gjald á þá sem nota nagladekk. Til að sú breyting geti orðið að veruleika þarf þó að breyta umferðarlögum.
Stofnunin vinnur nú að því að uppfæra áætlun um loftgæði þar sem þetta verður lagt til.
Fréttablaðið greinir frá.
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við miðilinn að pólitískur vilji gæti verið fyrir því að borgin taki upp þessa gjaldheimtu. Rannsóknir sýni að slit gatna sé 20 til 40 sinnum meira á nagladekkjum en ónegldum. Þá stóreykst svifryk með notkun dekkjanna.
Hann vekur athygli á því að í Noregi hafi sum sveitarfélög tekið upp á því að innheimta gjald sem nemi um 20 þúsund íslenskum krónum fyrir veturinn miðað við fjögur nagladekk undir bíl.
Til að koma í veg fyrir að gjaldið yrði eins konar landbyggðarskattur segir Þorsteinn mögulegt að útfæra gjaldheimtuna með þeim hætti að þetta yrði skattur fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu en gestir á nöglum greiði einungis daggjald sem myndi svipa til þess að leggja við stöðumæli.
Alexandra Briem, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að henni lítist vel á tillöguna og voni að hún gangi eftir.