Nærri 500 hjúkrunarfræðingar fengu sjúkradagpeninga úr styrktarsjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á síðasta ári, 3,2% félagsfólks. Eru það tæplega 90% fleiri styrkþegar en á árinu 2019 en það var dæmigert ár fyrir árin áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Miðað við þróunina það sem af er ári ríkir bjartsýni um að þeim fari aftur fækkandi sem sækja um sjúkradagpeninga en formaður félagsins segir of snemmt að fullyrða um það.
Ef litið er á fjölda þeirra sem fá sjúkradagpeninga má sjá að þeir voru 261 árið 2019, sem var dæmigert ár fyrir heimsfaraldur, 355 árið 2020 og 493 á árinu 2021.
Greiðslur úr styrktar- og sjúkrasjóðum stéttarfélaga hafa þróast með mismunandi hætti undanfarin ár. Hjá mörgum sjóðanna fóru greiðslur sjúkradagpeninga vaxandi í kórónuveirufaraldrinum og reyndist árið 2021 mörgum þungt í skauti. Það er þó ekki algilt því greiðslur minnkuðu hjá sumum.
Árið 2021 var mjög þungt hjá sjúkrasjóði Verkalýðsfélags Vestfirðinga því þá hækkuðu greiðslur sjúkradagpeninga um 57%. Stökk varð einnig það ár hjá sjúkrasjóði Einingar-Iðju í Eyjafirði en greiðslur sjúkradagpeninga jukust um 27% frá árinu á undan.
Stjórnir sumra sjúkra- og styrktarsjóða hafa lækkað aðra styrki til að geta staðið undir greiðslu sjúkradagpeninga, sem er aðalhlutverk sjóðanna.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.