Öllum boðið, nema fötluðum? er yfirskrift nýrrar aðgengisherferðar Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, sem ætlað er að vekja athygli á því að án viðunandi aðgengis sé fatlað fólk útilokað frá þátttöku í sjálfsögðum hlutum í lífinu.
Í herferðinni er m.a. vakin athygli á boðum á ýmsa viðburði á borð við barnaafmæli, atvinnuviðtal og brúðkaup, þar sem fötluðu fólki er í raun neitað um þátttöku þar sem aðgengi þeirra er ekki tryggt.
„Við berum öll ábyrgð á því að samfélagið okkar sé aðgengilegt og við getum öll lagt okkar af mörkum. Fyrirtæki og einstaklingar geta til að mynda leitað til Sjálfsbjargar og fengið aðstoð við úttekt á aðgengismálum og fengið tillögur að úrbótum,“ segir í tilkynningu Sjálfsbjargar.
Þar kemur einnig fram að á heimasíðu sambandsins sé hægt að nálgast upplýsingar um aðgengilega veislusali sem og staði sem henta öllum börnum fyrir barnaafmæli. Þá er einnig bent á appið TravAble sem sýnir aðgengilega staði.