„Við erum að ná rekstrinum í jafnvægi enda er aðhald á öllum sviðum,“ segir Drífa Hjartardóttir á Keldum, forseti kirkjuþings. Fyrstu lotu kirkjuþings á nýju kjörtímabili lauk í Katrínartúni 4 í Reykjavík gær en næsta lota verður í næsta mánuði. Drífa segir að fastanefndir kirkjuþings vinni áfram, fram að framhaldsþingi.
Á þinginu nú var aðallega verið að afgreiða mál sem þarf að ljúka sem fyrst, svo sem fjárhagsáætlun og breytingar og uppfærslur á ýmsum starfsreglum. Drífa segir að starfsreglurnar séu ígildi laga þjóðkirkjunnar.
Samþykkt var að sameina sóknir á þremur stöðum. Breiðabólstaðar- og Hvammstangasókn í Húnaþingi vestra verða sameinaðar í Hvammstangasókn. Hofs- og Hofsóssókn í Skagafirði verða sameinaðar í Hofsóssókn. Þá verða Oddasókn og Keldnasókn á Rangárvöllum sameinaðar og mun nýja sóknin heita Odda- og Keldnasókn. Sameiningarnar taka gildi 30. nóvember.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.