Það er létt yfir þeim Sigurlilju Kamillu Arnarsdóttur og Einari Erni Valdimarssyni, 17 ára nemendum við Framhaldsskólann á Laugum, er blaðamaður nær af þeim tali. Það er ekki furða enda stefnir í að þau verði fyrstu Íslendingarnir til að taka þátt í frægustu hæfileikakeppni heims, Britain‘s Got Talent.
Sigurlilja segir það leggjast vel í sig að koma fram fyrir heimsfrægum dómurum í ExCel höllinni í London þann 13. nóvember. „Ég er samt ótrúlega stressuð, en ég hlakka alveg ógeðslega mikið til. Ég er bara að deyja úr stressi, sérstaklega út af Simon [Cowell] því hann á það til að vera beinskeyttur.“
Einar tekur undir: „Þetta er voða mikið stress, sérstaklega út af Simon, en ég held við munum alveg geta þetta.“
Blaðamaður er þó knúinn til að velta fyrir sér hvað þau ætla að gera á sviði. „Það er engin leynd yfir því hvað við erum að fara að gera en meira yfir atriðinu sjálfu. Við erum að fara að syngja og spila,“ segir Einar og útskýrir að þetta sé ekki fyrsta keppnin sem þau hafa komið fram í en þau tóku þátt ásamt samnemendum í Samfés á síðasta ári.
Spurð hvernig þau tengjast kemur í ljós að þau hafa þekkst í um sjö ár og eru ekki bara samnemendur heldur einnig par. „Við búum bara hlið við hlið á Breiðdalsvík. Höfum verið bestu vinir frá því við vorum krakkar og svo þróaðist það bara,“ útskýrir Sigurlilja
En hvernig komust þau í keppnina? „Við sátum bara og vorum að horfa á vídeó af keppninni og okkur fannst tilhugsunin um að geta tekið þátt skemmtileg og sendum umsókn, og fengum hana staðfesta nokkrum dögum seinna,“ svarar Einar.
Sigurlilja viðurkennir að hafa ekki verið alveg jafn kokhraust og hann. „Þegar ég og Einar vorum að tala um þessa keppni að við vorum bara eitthvað að grínast hvað væri gaman að taka þátt. Svo stekk ég fram og þegar ég kem aftur inn í herbergið þá er hann bara búinn að sækja um. Ég bara eitthvað: Hvað ertu búinn að gera? Nú er þetta kannski í alvörunni að fara að gerast!“ segir Sigurlilja og hlær. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt,“ bætir hún við.
Ekki er sjálfgefið að fólk fái að koma fram fyrir dómarana fjóra þrátt fyrir að sækja um þátttöku, þykir það jafnvel langsótt að fá boð um að stíga á svið í London.
„Þetta var rosalegt sjokk. Við vorum mjög lítið að búast við því að við myndum komast að, en svo kom þetta bara og við vissum ekki alveg hvernig við ættum að bregðast við þessu. Við fengum rosalega skemmtileg viðbrögð þegar við hringdum í foreldrana. Það var nánast fríkað út. Mamma hélt fyrst að ég væri bara eitthvað að stríða sér,“ segir Einar.
Ekki voru foreldrar Sigurlilju minna hissa. „Mamma mín hún átti erfitt með að trúa þessu og svo sýndi ég henni þetta og svo eru allir búnir að vera mjög spenntir fyrir þessu,“ segir hún.
Eins og fyrr segir fylgir því ákveðið álag á taugarnar að stíga á svið fyrir framan Simon Cowell, Amanda Holden, Alesha Dixon and David Walliams sem dæma í fimmtándu þáttaröð keppninnar. Hvernig á að takast á við stressið? „Anda rólega og æfa sig. Bara vita það að maður sé tilbúin og hoppa svo út í djúpu laugina,“ segir Sigurlilja.
Draumurinn er að syngja og spila og markmiðið er að taka keppnina með stormi, segir Einar að lokum.