Umhverfisstofnun leggur til að sveitarfélög fái heimild til gjaldtöku fyrir notkun nagladekkja. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir félagið ekki vera hlynnt skattlagningu á öryggi ökutækja. Hann segir sérstakan skatt á nagladekk vera aðför að öryggi.
„Félagið hefur markvisst ekki verið hlynnt skattlagningu á öryggi ökutækja. Á sama tíma höfum við í sjálfu sér hvatt fólk til þess að gera sína eigin þarfagreiningu en æskilegt er að sem flestir séu án nagla sem þurfa ekki að vera á nöglum. Það að setja sérstakan skatt á naglanotkun er eitthvað sem við teljum geta verið aðför að öryggi,“ segir Runólfur.
Tilgangurinn með gjaldtökunni er að draga úr notkun nagladekkja í þéttbýli, fyrst og fremst svo bæta megi loftgæði. Runólfur telur það æskilegra að upplýsa fólk um umhverfisleg áhrif af notkun nagladekkja frekar en að skattleggja notkun á nagladekkjum.
„Aukin meðvitund er um að notkun nagladekkja hafi neikvæð áhrif á slit gatna og umhverfið. Samdráttur hefur verið í notkun nagladekkja en fyrir nokkrum árum var mikill meirihluti á nagladekkjum. Þetta hefur breyst og ónegld dekk eru alltaf að verða betri og betri og orðinn ákjósanlegur kostur að taka ónegld vetrardekk. Öryggislega séð slær ekkert negldum vetrardekkjum við við vissar aðstæður en þær aðstæður eru mjög hverfandi í til dæmis þéttbýlinu á suðvesturhorninu,“ segir Runólfur.