Starfsfólk fái þjálfun í eineltismálum

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar hefur falið sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs að leiða vinnu með sérfræðingum á sviði menntamála hjá Hafnarfirði við að skoða þá verkferla sem eru til staðar þegar kemur að eineltismálum barna og ungmenna.

Fræðsluráð lagði einnig til á fundi sínum í morgun að starfsfólk, sem kemur að eineltismálum í grunnskólum Hafnarfjarðar, fái sérstaka þjálfun til að takast á við eineltismál sem upp kunna að koma. Unnið verði að því að styrkja enn frekar forvarnir gegn ofbelti og einelti.

„Fræðsluráð fordæmir einelti og leggur ríka áherslu á að fagfólk á sviði menntamála í Hafnarfirði setji áherslu á að finna og vinna með bestu mögulegar lausnir,” segir í fundargerð.

Í síðustu viku var greint frá því að 12 ára stúlka, sem er nemandi í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, hafi gert tilraun til sjálfsvígs vegna grófs eineltis. Mikil umræða upphófst í kjölfarið um eineltismál hér á landi og viðbrögð við þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert