Þyrla gæslunnar á ferð um götur Reykjavíkur

TF-LIF á ferð um höfuðborgarsvæðið.
TF-LIF á ferð um höfuðborgarsvæðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF var flutt í dag um götur Reykjavíkur aftan á vagni vöruflutningabifreiðar og í fylgd lögregluþjóna á mótorhjólum með blikkandi ljós. Var vélin flutt úr geymslu í Keflavík á Reykjavíkurflugvöll á svæði Landhelgisgæslunnar.

Til flutninganna sást meðal annars í Árbæ í Reykjavík, en þaðan lá leiðin niður á Miklubraut og Sæbraut áður en keyrt var með þyrluna upp Snorrabraut og að Reykjavíkurflugvelli.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi gæslunnar, segir í samtali við mbl.is að vélin hafi verið í geymslu undanfarið í Keflavík vegna plássleysis á Reykjavíkurflugvelli. Var vélin sett þangað eftir að hún var tekin úr notkun, en á árunum 2019 til 2021 komu þrjár nýlegri leiguþyrlur í þjónustu Landhelgisgæslunnar, en þær eru allar af sömu tegund og TF-LIF, en af annarri undirtegund. Eru í dag vélarnar TF-EIR, TF-GRO og TF-GNA í þjónustu gæslunnar.

Ásgeir segir að meira pláss hafi komið til á Reykjavíkurflugvelli með nýju flugskýli og þess vegna hafi vélin verið flutt til baka og nú sé þess beðið að söluferli vélarinnar hefjist.

Vélin á ferð upp Snorrabraut.
Vélin á ferð upp Snorrabraut. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert